Monday, June 14, 2010

Rútína í klaustrinu.

Hárið á Lilju var komið aðeins of langt niður í augu og stóð sig örlítið of vel í að halda hita á hausnum á henni í hádegissólinni. Eir var fengin til að klippa, og upphaflega átti Lilja að skarta flottum kamb að því loknu. En eftir nokkra umhugsun komumst við að því að án allra fínu hárvaranna sem skildar voru eftir á Íslandi myndi hún aldrei nenna að setja kambinn upp í hinn rosalega death-hawk stíl sem honum var ætlað. Svo klippingin varð aðeins látlausari en kamburinn fær að bíða þar til ég sný aftur til fósturjarðarinnar.

Stelpurnar í klaustrinu tóku ekki eftir neinum mun þegar þær mættu Lilju nýklipptri, jafnvel eftir að Eir sagði þeim frá hárgreiðslunni. Strákarnir tóku hinsvegar strax eftir því. Þannig að það sést að þeir horfa augljóslega framan í mann þegar maður talar við þá, meðan konurnar eru uppteknar af því hvort maður hafi fitnað. Sem við höfum líklega gert, enda Portúgalar mjög hrifnir af eftirréttunum sínum og sætindum.


Annars er aðgerðaleysi farið að taka sinn toll á flesta í klaustrinu. Margir kvarta sáran undan hinni daglegu rútínu sem er vakna, borða, kaupa í matinn, fara á Areacaffé, fara að sofa.
Ágætis lífstíll í viku eða tvær, en síðan fer fólk hægt og hægt að missa vitið.

1 comment:

  1. alltaf að muna að njóta stundarinnar, þið yljið ykkur við þessar minningar í einhverri vetrarferðinni!

    ReplyDelete