Sunday, June 20, 2010

Eir skrifar

Í dag er 112 dagurinn minn í Arouca! o:
Það er alveg hellings tími til að eyða frá fjölskyldu og vinum, í bíólausu þorpi í Portúgal.
Verð að játa að dvölin hér hefur ekki verið eins mikill dans á rósum og ég var að vona, til dæmis er veðrið hér annað hvort of heitt eða of kalt.
Hér er hellingur af fjölbreyttu og skemmtilegu fólki sem ég er heppin að geta kallað vini mína en hópandinn er því miður ekki upp á sig besta og skortur á framtakssömu og leiðandi fólki í bland við lélégar aðstæður og ekkert rými til samverustunda (við getum ekki einu sinni öll borðað kvöldmat saman og hér eru engir sófar eða sjónvarp) gerir hópeflingu frekar erfiða.
Sem er ekki hrikalega gott fyrir manneskju eins og mig sem þarf nær stanslausa nærveru fólks og alveg óteljandi knús.
Er auðvitað að knúsa alla hérna, klausturbúa og þorpsbúa. Hef meira að segja knúsað bæjarstjórann sjálfann!
En því miður eru það færri sem knúsa mig :/
Vissi ekki að það væri einhvað sem ég þyrfti svona mikið.
Einnig finnst ég ég alltaf vera utangátta í öllu sem er að gerast og algjörlega óþörf í flestu.
Þegar þú ert með 19 manneskjur í örfá sjálfboðastörf, þá geta ekki allir alltaf haft einhvað að gera.
-Svo, fjarvera frá fjölskyldu og vinum plús aðgerðarleysi hefur haft mjög slæm áhrif á mig.
Sem betur fer kom Lilja til að bjarga mér í byrjun mánaðarins, en ég er enn ekki upp á mitt besta. Hjálpar til að við deilum herbergi, en sem betur fer er það samt bara tímabundið, því þótt ég elski hana alveg ofboðslega er þetta mjög lítið herbergi fyrir tvo.
Og auðvitað er Lára frænka komin aftur, svo við ættum að fara að geta í sameiningu að hrista aðeins upp í liðinu.
Vonandi.

Annað er svo að ég hef nánast EKKERT heyrt frá fjölskyldunni og vinum mínum á Íslandi síðan ég kom.
Ekki einu sinni pabba og mömmu.
Ég veit að flest eru frekar léleg í fjarskipta samskiptum, sérstaklega yfir netið. En ég veit ekki einu sinni hverjir lesa þetta aðrir en pabbi, mamma, Þóra og Rúnar.
Heyri einstaka sinnum frá foreldrunum, talað mest við Þóru, talað aðeins við Önnu Karen og svo bara nokkur orðaskipti við tvo þrjá aðra vini.
Á næstum 4 mánuðum o.o
Ég er auðvitað ekkert skárri í netsamskiptum og er ekki að biðja um neinar ritgerðir, en "hæ" eða bara broskall til að vita að þið séu þarna og séuð ekki alveg búin að gleyma mér væri ágætt.

Finnst enn eins og ég hafi engu áorkað síðan ég kom hingað. Portúgölskukunnáttan í lágmarki og ég algjörlega ófær um að læra með því að spjalla við fólkið hérna, afþví... þið vitið, ég er ekki hrikalega góð í að spjalla við fólk MEÐ einhvern orðaforða, hvað þá án.
Ákvað í dag að byrja að hreyfa mig meira og skera niður súkkulaði og óhollustuatið. Sjáum til hvernig það virkar.

Er alvarlega að pæla í að kaupa mína eigin fartölvu, því þegar við erum á Area getur bara einn verið í tölvunni hennar Lilju í einu :)
Get stundum auðvitað hnuplað tyrkneskri tölvu en það er leiðinlegt til lengdar. Einnig engir íslenskir stafir (þau hafa ö samt) og tvö mismunandi "i". Það er ruglandi.

Hefði örugglega haft gott af því að ferðast einhvað en er ekki manneskjan til að fara ein eitt né neitt. Finnst ævintýri vera fyrir að minnsta kosti tvær manneskjur annars er það martröð. =.=

En 22. - 25. erum við Íslandingarnir (ég, Lilja, Lára og Þangi litli bróðir Láru sem er í heimsókn) að fara til Portó og skemmta okkur þar. Vonandi verslað einhvað, sjá sjóinn loksins aftur og ströndina svo finnum við Lilja okkur kannski skanna :3

...
okay, ég er búin núna. Ekki meiri wall of text í bili xP

Ástarkveðjur, Eir

Monday, June 14, 2010

Rútína í klaustrinu.

Hárið á Lilju var komið aðeins of langt niður í augu og stóð sig örlítið of vel í að halda hita á hausnum á henni í hádegissólinni. Eir var fengin til að klippa, og upphaflega átti Lilja að skarta flottum kamb að því loknu. En eftir nokkra umhugsun komumst við að því að án allra fínu hárvaranna sem skildar voru eftir á Íslandi myndi hún aldrei nenna að setja kambinn upp í hinn rosalega death-hawk stíl sem honum var ætlað. Svo klippingin varð aðeins látlausari en kamburinn fær að bíða þar til ég sný aftur til fósturjarðarinnar.

Stelpurnar í klaustrinu tóku ekki eftir neinum mun þegar þær mættu Lilju nýklipptri, jafnvel eftir að Eir sagði þeim frá hárgreiðslunni. Strákarnir tóku hinsvegar strax eftir því. Þannig að það sést að þeir horfa augljóslega framan í mann þegar maður talar við þá, meðan konurnar eru uppteknar af því hvort maður hafi fitnað. Sem við höfum líklega gert, enda Portúgalar mjög hrifnir af eftirréttunum sínum og sætindum.


Annars er aðgerðaleysi farið að taka sinn toll á flesta í klaustrinu. Margir kvarta sáran undan hinni daglegu rútínu sem er vakna, borða, kaupa í matinn, fara á Areacaffé, fara að sofa.
Ágætis lífstíll í viku eða tvær, en síðan fer fólk hægt og hægt að missa vitið.

Tuesday, June 8, 2010

Menningarvika og klausturhrekkir.

Jæja, nú erum við orðnar tvær systurnar í klaustrinu. Við ákváðum að uppfæra báðar bloggið í staðin fyrir að gera annað fyrir Lilju, eða að Eir væri bara að blogga meðan Lilja læi í leti og drykki sangria.

4.júní byrjaði menningarvika og margt að gera í kringum hana. Lilja málaði spiderman-grímu á andlitið á litlum krakka, og svo sátum við saman yfir sýningu á efri hæð safnsins í fimm klukkutíma í gær. Safnið er utandyra svo mikill hluti vaktarinnar fór í að hlaupa á eftir skrautlegum pappakössum og föndruðum blómum sem fuku um. Og auðvitað spilunum okkar, en við reyndum að spila rommý til að drepa tímann. Að minnsta kosti leiddist okkur ekki meðan við hlupum.

Í fyrrakvöld settum við upp sensory labyrinth í klaustrinu og rúmlega tuttugu manns fóru í gegn. Viðbrögðin voru flest mjög jákvæð og ófáa skorti orð til að lýsa því hvernig þau upplifðu það. Lilja sá um að láta fólk þefa af karrý og kardimommudropum, en Eir söng fyrir fólk meðan hún lagði það í gröfina.


Áðan fékk Jean (franski gaurinn) heimsókn frá systur sinni og frænku. Meðan þau sátu í eldhúsinu og spjölluðu og átu osta hljóp einhver púki í restina af krökkunum. Nokkur þeirra skutust upp í herbergið hans og færðu næstum öll húsgögnin og hluti inn á salerni. Svo röðuðu þau fullt af kertum um allt og létu tölvuna spila klassíska tónlist. Þegar greyið Jean var leiddur upp til að líta á herlegheitin var andrúmsloftið mjög svo rómantískt, og Sonya hafði legist fyrir á rúminu með rauðvínsglas í hendi og kvaðst hafa beðið hans...


Því miður var batteríið í myndavélinni ekki upp á sitt besta og því náðist ekki nema ein mynd, sem gerir listrænni uppsetningu húsgagnanna enganvegin skil.